Spurt og svarað

  • Ef sveitarfélögin sameinast ekki, hvað þarf Akrahreppur þá að gera til að uppfylla þær skyldur sem sveitarfélög eiga að sinna?

    Á fjórða ársfjórðungi 2021 voru íbúar í Akrahreppi 200 en skv. nýrri 4.gr sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 verður lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga 250 eftir sveitarstjórnarkosningar 2022.

    Ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 250 íbúum eftir sveitarstjórnarkosningar 2022, eða 1.000 íbúum við sveitarstjórnarkosningar 2026 skal sveitarstjórn velja hvort:

    a) Hafnar verði formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr.
    b) Eða unnið verði álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.

    Í álitinu skal m.a. fjalla um fjárhagslega og félagslega þætti sveitarfélagsins, íbúaþróun, þjónustu sveitarfélagsins og aðrar samfélagslegar aðstæður.

    Ráðuneytið skal gefa út reglugerð þar sem nánar er kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla.

  • Hvernig er Sveitarfélagið Skagafjörður statt skuldalega séð, samanborið við önnur sveitarfélög?

    Fjárhagsleg viðmið til að ná markmiðum laga um fjárhagslega sjálfbærni og jafnvægi í rekstri sveitarfélaga má finna í 6 gr. reglugerðar um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga nr. 502/2012. Þar kemur m.a. fram að sveitarfélög skulu tryggja að:

    a) Samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum (jafnvægisregla).

    b) Heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum samkvæmt þeim reikniaðferðum sem lýst er í IV. kafla reglugerðar þessarar (skuldaregla)

    Skuldahlutfall Sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2020 var 123% og skuldahlutfall Akrahrepps 21%. Meðalskuldahlutfall sveitarfélaga var 84% árið 2020. Bæði sveitarfélögin standast svokallaða skuldareglu. Rekstur Sveitarfélagsins Skagafjarðar stendur undir afborgunum lána og öðrum skuldbindingum sveitarfélagsins. Nánari upplýsingar um fjármál sveitarfélaga má finna í minnisblaði fjármála Samstarfsnefndarinnar og á mælaborði Sambands Íslenskra Sveitarfélaga. Nánari upplýsingar um fjármál sveitarfélaga má finna í minnisblaði fjármála Samstarfsnefndarinnar og á mælaborði Sambands Íslenskra Sveitarfélaga. 

  • Er Sveitarfélagið Skagafjörður að verða gjaldþrota? Geta sveitarfélög orðið gjaldþrota?

    Sveitarfélagið Skagafjörður er ekki að verða gjaldþrota. Í 6 gr. reglugerðar um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga nr. 502/2012 má finna fjárhagsleg viðmið til að ná markmiðum laga um fjárhagslega sjálfbærni og jafnvægi í rekstri skulu sveitarfélög tryggja að:

    a) Samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum (jafnvægisregla).

    b) Heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum samkvæmt þeim reikniaðferðum sem lýst er í IV. kafla reglugerðar þessarar (skuldaregla).
     
    Sveitarfélagið Skagafjörður stóðst jafnvægisreglu árin 2018 til 2020 og í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins er áætlað að jafnvægisregla verði jákvæð árin 2022, 2024 og 2025. Skuldahlutfall sveitarfélagsins árið 2020 var 123% og í fjárhagsáætlunum árin 2022-2025 fer skuldahlutfall lækkandi og áætlað er að hlutfallið verði 120% árið 2025. Rekstur Sveitarfélagsins Skagafjarðar stendur undir afborgunum lána og öðrum skuldbindingum sveitarfélagsins og er áætlað að sveitarfélagið greiði niður lán á næstu árum.
    Sveitarfélög verða ekki tekin til gjaldþrotaskipta. Ekki verður gerð aðför í þeim eignum sveitarfélaga sem eru nauðsynlegar til framkvæmda á lögboðnum verkefnum.
  • Eru framlög vegna sameiningar sveitarfélaga tekin af framlögum jöfnunarsjóðs til annarra sveitarfélaga landsins?

    Framlög vegna sameiningar byggja á reglum um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga hafa tekið gildi. Reglurnar fela í sér aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga og er ein af aðgerðum í þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem samþykkt hefur verið á Alþingi.

    Framlög vegna sameiningar eru dregin frá öðrum framlögum sjóðsins og þá helst útgjaldajöfnunarframlagi en framlög vegna sameininga er eitt af lögbundnum hlutverkum sjóðsins. Þó svo að önnur framlög Jöfnunarsjóðs séu talsverðir fjármunir þá dreifast framlögin á sjö ár og áhrifin á hvert og eitt sveitarfélag á hverju ári eru þá hlutfallslega lítil.

    Samkvæmt tillögu að nýjum reglum verða eftirfarandi fimm þættir grundvöllur útreiknings sameiningarframlaga:

    • Undirbúningur og framkvæmd sameiningar
    • Óskert tekju- og útgjaldajöfnunarframlög
    • Skuldajöfnunarframlag
    • Endurskipulagning þjónustu og stjórnsýslu
    • Byggðaframlag

    Allt að 15 milljarðar króna gætu runnið í slíkan stuðning á næstu 15 árum allt eftir því hvort sveitarfélög hyggjast nýta sér þennan möguleika.

    Sjá nánar á vef stjórnarráðsins

  • Hvað er á bak við miklar skammtímaskuldir Sveitarfélagsins Skagafjarðar í ársreikningi 2020?

    Í ársreikningi Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2020 kemur fram að aðrar skammtímaskuldir séu 967 m.kr. Stærsti liður þar á bak við eru viðskiptaskuldir vegna viðskipta við fyrirtæki í desember 2020, ógreitt áunnið orlof og útistandandi krafa vegna framlags Menningarseturs Skagfirðinga í Varmahlíð, sem varið verður til framkvæmda við skólamannvirki í Varmahlíð.

    Hafa ber í huga að þegar velta er jafn mikil og hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, sem nam yfir 6 milljörðum króna á árinu 2020, þá eru háar tölur sem eru útistandandi sem bæði skuldir og kröfur um áramót. Óinnheimtar tekjur um áramót 2020 voru þannig 725 m.kr. og aðrar skammtímakröfur 181 m.kr., auk þess sem handbært fé í árslok var 327 m.kr.

     

  • Hvaða skilyrði eru sett fyrir sameiningarframlögunum?

    Greiðsludreifing og nýting verður ákveðin í samkomulagi við Jöfnunarsjóð. Almennt er gerð krafa um að 60-80% af skuldajöfnunarframlaginu fari til uppgreiðslu skulda, eða í fjárfestingar og koma í þannig í stað lántöku.

  • Hvaða áhrif hefur verðbólguskotið á Sveitarfélagið Skagafjörður?

    Aukin verðbólga mun hafa áhrif á verðtryggð lán sveitarfélagsins og hækka höfuðstól, en eðli verðtryggðra lána er að afborganir hækka minna. Á móti kemur að í kjarasamningum er alltaf horft til verðbólgu og kaupmáttaraukningar umfram verðbólgu. Það hefur tekist nú um margra ára skeið þannig að ljóst er að laun og þar með útsvarstekjur hækka gjarnan í takt við verðbólgu. Þá hækka gjaldskrár gjarnan í takt við verðlagsþróun.

  • Missa íbúar Akrahrepps skipulagsvaldið?

    Verði af sameiningu verður ein skipulagsnefnd starfandi í sveitarfélaginu. Íbúar Akrahrepps munu hafa sömu aðkomu að þeirri ákvarðanatöku og aðrir íbúar í Skagafirði. Skipulagslög setja mjög skýrar kröfur um samráð við íbúa við hvert skref.

  • Missa íbúar Akrahrepps af peningunum af virkjunum?

    Skatastaðavirkjun er í biðflokki Rammaáætlunar 2. Í Rammaáætlun 3 sem er nokkrum sinnum búin að fara fyrir Alþingi, án afgreiðslu, er gert ráð fyrir að Skatastaðavirkjun (og Villinganesvirkjun) færist yfir í verndarflokk. Nú er búið að boða að Rammaáætlun 3 fyrir næst fyrir Alþingi í mars 2022.

    Fasteignatekjur virkjunar koma í dag f.o.f. frá gjöldum á stöðvarhús. Í uppdráttum er ekki ólíklegt að það verði í Akrahreppi en það kann þó að breytast í ítarlegri hönnun miðað við forsendur dagsins í dag. Samtök orkusveitarfélaga eru reyndar með mál fyrir ESA um þessar mundir varðandi undanþáguheimild ríkisins til að fella niður gjöld á önnur orkumannvirki þannig að þessi gjaldtaka kann að breytast.

  • Verður dreifbýlið afskipt?

    Um helmingur nefndamanna í nefndum og ráðum Sveitarfélagsins Skagafjarðar á núverandi kjörtímabili koma utan Sauðárkróks þannig að dreifingin þar er nokkuð hagstæð dreifbýlinu. Það er afar mikilvægt að fólk alls staðar úr Skagafirði gefi kost á sér til sveitarstjórnarstarfa, jafnt úr dreifbýli sem þéttbýli.

  • Hver er áætlaður heildarkostnaður við skólamannvirki í Varmahlíð, það er nýr leikskóli og allar breytingar á húsnæði grunnskólans?

    Fyrirliggjandi tillaga að hönnun og kostnaðaráætlanir gera ráð fyrir að kostnaðurinn verði um 1.200 m.kr.

  • Hvernig ætlar hreppsnefnd Akrahrepps að snúa neikvæðum rekstri sveitarfélagsins við og hætta að ganga á handbært fé? Hvar ætlar hún að skera niður í rekstrinum eða hvar á að sækja auknar tekjur?

    Það verður nýrrar sveitarstjórnar Akrahrepps að takast á við þær áskoranir.

  • Hvað eru kostir Akrahrepps að sameina ekki?

    Þau sjónarmið hafa komið fram að kostir þess að Akrahreppur verði áfram sjálfstætt sveitarfélag felist einna helst í því að verja ákvörðunarrétt, halda skuldum lágum og eiga möguleika á tekjum af virkjun í framtíðinni.

  • Hvað borgaði sveitarfélagið Skagafjörður í verðbætur af lánum síðustu tvo mánuði?

    Hvert prósentustig í hækkun á verðbólgu þýðir að verðbætur hækka um u.þ.b. 50 m.kr. á ári. Hafa ber í huga að verðbætur gjaldfærast á viðkomandi rekstrarári en þær greiðast á þeim tíma sem eftir er af lánstímanum þannig að afborganir hækkar minna. Einnig hækka tekjur oft í takt við þróun verðlags svo sem að framan greinir.

  • Ef kemur til sameiningar mun þessi hugmynd um göng í Hjaltadal falla niður? Eða mun það standa áfram til þess að reyna gera Sauðárkrók að stoppustað fyrir þá sem keyra þjóðveginn?

    Það er nýrrar sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi að taka afstöðu til jarðgangakosta innan sinna skipulagsmarka. Sveitarfélagið Skagafjörður leggur í dag áherslu á Fljótagöng og Tröllaskagagöng og Akrahreppur á göng undir Öxnadalsheiði. Ekki er ólíklegt að allir kostir verði áherslumál nýrrar sveitarstjórnar en ljóst er að skoða þarf forgangsröðun framkvæmda.

  • Hvernig hyggst hreppsnefnd Akrahrepps, núverandi eða verðandi, mæta kröfum um það sem hún á að standa skil á varðandi samþykktir, reglur, gjaldskrár, lögbundna þjónustu o.fl. lögskyld verkefni?

    Það verður nýrrar sveitarstjórnar Akrahrepps að takast á við þær áskoranir.

  • Ef ekki verður af sameiningu, ætlar Akrahreppur þá að segja upp samstarfssamningum við Sveitarfélagið Skagafjörð og taka til baka það vald sem hann hefur framselt frá sér og öðlast þannig raunverulegt sjálfstæði?

    Þegar núverandi samningur rennur sitt skeið þurfa sveitarstjórnir næsta kjörtímabils að taka afstöðu til framhaldsins.

  • Ef Kjálkabrú er svona góð hugmynd núna, þá afhverju unnu sveitastjórnar/hreppsnefndar menn ekki að því að fá hana á samgönguáætlun stax og þeir voru kjörnir í staðinn fyrir að nota hana sem kosningaloforð?

    Hugmyndin er ekki ný. Nefndin setur verkefnið fram sem áhersluatriði í samskiptum við ríkið. Kjálkabrú hefur verið til umræðu í nærri 30 ár, er hennar getið í aðalskipulagi beggja sveitarfélaga. Lagðar hafa verið fram tvær þingsályktunartillögur um þá framkvæmd. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur veitt jákvæðar umsagnir um þau áform.

  • Hvert er hlutverk sveitarfélaga á Íslandi?

    Verkefni sveitarfélaga eru mjög fjölbreytt, en helstu verkefni eru fræðslumál, félagsþjónusta og skipulagsmál. Hér má nálgast yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=06aad5c1-bda3-11e8-942c-005056bc530c

  • Hvers vegna er teikning af nýrri byggingu leikskólans í Varmahlíð ekki fyrir fleiri börn en teikningar sýna eða u.þ.b. 45 börn, allavega undir 50, ef gera á ráð fyrir fjölgun íbúa? Hver er framtíðarsýnin?

    Stækkun leikskóla gerir ráð fyrir sömu hlutfallslegu fjölgun barna þar og í grunnskóla eða u.þ.b. 50% fyrir hvern árgang að jafnaði.

  • Persónukjör - er endilega æskilegt fyrirkomulag að kjósa fólk til starfa sem hefur ekki um það beðið?

    Persónukjör og hlutfallskosningar á lista hafa kosti og galla sem er ekki rými til að reifa hér :-)

  • Í fyrra voru íbúafundir vegna breytinga á skólahúsnæði í Varmahlíð. Er einhversstaðar hægt að sjá niðurstöður hópanna sem tóku þátt?

  • Hvert er hlutfall framlags jöfnunarsjóðs af heildartekjum Svf. Akrahrepps samanborið við Svf. Skagafjörð?

    Hlutfall framlaga Jöfnunarsjóðs af heildartekjum árið 2020 í Akrahreppi var 43,9% og 26,1% í Sveitarfélaginu Skagafirði. Sameinað sveitarfélag hefði hlutfallið 26,7% árið 2020.

    Sveitarfélag Framlög Jöfnunarsjóðs sem hlutfall af heildartekjum
    Sveitarfélagið Skagafjörður 26,15%
    Akrahreppur 43,92%
    Sameinað 26,70%

     

     

  • Ef sameiningin verður samþykkt, hvað mun sveitarfélagið heita?

    Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

     

     

  • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa?

    Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

     

     

  • Hver er munurinn á formlegum og óformlegum viðræðum?

    Formlegar viðræður um sameiningu fara fram samkvæmt ákvæðum 119. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011. Ferlinu því lýkur með atkvæðagreiðslu á meðal íbúa og niðustöður atkvæðagreiðslunnar í hverju sveitarfélagi eru bindandi fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Í ákvörðun um þátttöku í formlegum viðræðum felst því skuldbinding sveitarstjórnar til að láta fara fram atkvæðagreiðslu og til að fylgja niðurstöðum hennar.

    Óformlegar viðræður fela ekki í sér skuldbindingu af hálfu hlutaðeigandi sveitarstjórna. Þær ráða hvernig viðræðurnar fara fram og geta hver um sig tekið ákvörðun um að hætta viðræðum ef þeim sýnist svo.

     

  • Hverjir hafa kosningarétt í atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga?

    Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu, hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, 18 ára og eldri, hafa kosningarétt ef þeir eru með skráð lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu. Aðrir erlendir ríkisborgarar hafa kosningarétt hafi þér átt skráð lögheimili hér á landi þrjú ár samfleytt fyrir kjördag. Sömu reglur gilda þegar kosið er til sveitarstjórna.

     

     

  • Er atkvæðagreiðslan bindandi?

    Já, niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir.

     

     

  • Fá íbúar að taka þátt í mótun tillögunnar?

    Já. Íbúafundir verða haldnir 26. október í Félagsheimilinu Ljósheimum við Sauðárkrók og í Héðinsminni. Á fundunum verður kynning á stöðu verkefnisins og umfjöllun um stöðu málaflokka í starfsemi sveitarfélaganna og mögulegar breytingar ef til sameiningar kemur. Fundunum verður streymt á Facebooksíðum sveitarfélaganna. Á fundinum verður notað rafrænt samráðskerfi svo allir sitji við sama borð, þ.e. þeir sem mæta á fundarstað og þeir sem fylgjast með í streymi. Auk þess verður boðið upp á spurningar og ábendingar úr sal og leitast verður eftir sjónarmiðum íbúa áður en tillaga nefndarinnar liggur endanlega fyrir. 

     

     

     

     

     

     

     

     

  • Hvernig er hægt að tryggja að í nefndum sameinaðs sveitarfélagsins sitji fulltrúar frá mismunandi svæðum?

    Það verður ekki tryggt, en líkurnar aukast með fleiri með fulltrúum. Framboðin hafa hagsmuni af því að ná til íbúa af öllu svæðinu.

     

     

  • Mun samstarfsnefndin fylgja vinnunni eftir ef af sameiningu verður?

    Samkvæmt lögunum verður skipuð undirbúningsstjórn, sem er yfirleitt skipuð sama fólki og sat í samstarfsnefndinni.

     

     

  • Er einhver lágmarksþátttaka í kosningum um sameinað sveitarfélag?

    Nei. Meiri hluti kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi ræður niðurstöðu kosningar um sameiningu.

  • Hvað ef sameiningu er hafnað, setur það núverandi samstarf sveitarfélaganna í uppnám?

    Núverandi samstarfssamningur gildir út árið 2023. Að þeim tíma liðnum taka þær sveitarstjórnir sem þá eru að störfum afstöðu til samstarfsverkefna.

     

  • Hvernig verður ruslamálum háttað í sameinuðu sveitafélagi?

    Sveitarfélögin eru sameiginlega að vinna að útboði sorpmála. Niðurstaða þess útboðs mun hafa í för með sér breytingar. Þegar niðurstöður útboðs liggja fyrir, verður hægt að svara spurningunum með skýrari hætti.

    Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs skal innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í samræmi við kostnað. Gjaldskrá fyrir sorp verður tekin upp í Akrahreppi og innheimta hefst árið 2022. Í tengslum við sameiginlegt útboð sveitarfélaganna í Skagafirði á þessari þjónustu og mögulegum þjónustubreytingum verður gjaldskrá jafnframt endurskoðuð í því ljósi í Sveitarfélaginu Skagafirði og gjaldskráin því samræmd innan sameiginlegs sorphirðusvæðis beggja sveitarfélaga. Miðað er við að niðurstaða í útboði og framkvæmd í kjölfarið verði hafin á vordögum 2022.

  • Hvað með mögulega virkjanakosti í framhéraðinu sem nú eru í biðflokki rammaáætlunar. Ætlar sameinað sveitarfélag að leggja áherslu á að unnið verði að virkjun eða verndun?

    Skiptar skoðanir eru innan beggja sveitarstjórna um virkjanakostina. Meðan þeir eru í biðflokki geta sveitarfélögin ekki tekið formlega afstöðu til þeirra í sínu aðalskipulagi.

     

  • Ef til sameiningar kemur mun sveitarstjórn þá endurskoða áherslur á jarðgöngum og horfa fremur til Öxnadalsheiðar fremur en Kolbeindals/ Hjaltadal. Óskum eftir skýru svari.

    Ný sveitarstjórn í mögulega sameinuðu sveitarfélagi mun gera nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og taka afstöðu til valkosta. Hingað til hefur sveitarstjórn Sv.Skagafjarðar fjallað um valkosti innan sinna skipulagsmarka og Akrahreppur um valkosti innan sinna skipulagsmarka. 

     

  • Hvaða starfsemi er fyrirhuguð í Menningarhúsinu á Sauðarkróki?

    Í því húsi verður ýmis safnastarfsemi, svo sem Héraðsskjalasafn, aðstaða fyrir Byggðasafn og fleira. Starfsemi í húsinu er ekki ætlað að vera í samkeppni við önnur menningarhús, svo sem Miðgarð, um tónleikahald og þess háttar.

     

     

  • Á að loka einhverjum skólum?

    Það stendur ekki til, þvert á móti er unnið að eflingu skólastarfs í Varmahlíð og eru miklar fjárfestingar í skólahúsnæði framundan. 

     

  • Hvaða menningarhús er á Sauðárkrók?

    Nýtt Menningarhús er í bígerð í samstarfi við ríkið. Í því húsi verður ýmis safnastarfsemi, svo sem Héraðsskjalasafn, aðstaða fyrir Byggðasafn og fleira. Starfsemi í húsinu er ekki ætlað að vera í samkeppni við önnur menningarhús, svo sem Miðgarð, um tónleikahald og þess háttar.

     

     

  • Hefur verið skoðað að sameina Akrahrepp við Svf Skagafjörð mínus Sauðárkrók?

    Það hefur ekki verið skoðað, enda er það ekki heimilt samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum. Í þeim er fjallað um sameiningu sveitarfélaga í XII. kafli, en ekkert fjallað um mögulega skiptingu þeirra.

     

     

     

     

  • Á virkilega að halda áfram skólastrætó innanbæjar á Sauðárkrók ef af sameiningu verður? Bíllinn ekur á eftir flestum foreldrum á leið til vinnu og um 7-800 metrar eru frá grunnskóla og að stoppistöð sem lengst er frá skóla

    Samþykkt var á síðasta ári í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar að hefja í tilraunaskyni almenningssamgöngur á Sauðárkróki. Verkefnið þótti gefast vel og því var samþykkt sl. sumar að bjóða sambærilegt verkefni út til tveggja ára. Útboðið fór fram í haust og í kjölfarið var samið við verktaka um framkvæmd þjónustunnar.

  • Mun verða lögð áhersla á skólaakstur fyrir framhaldsskólanema í dreifðum byggðum svo nemendur geti verið lengur heima?

    Málefni framhaldsskóla og háskóla fellur undir ríkið en ekki sveitarfélög landsins. Eigi að síður hafa sveitarfélögin beitt sér fyrir auknum almenningssamgöngum um land allt og um skeið báru landshlutasamtök sveitarfélaga ábyrgð á almenningssamgöngum á landsbyggðinni, með samkomulagi við ríkið. Vegagerðin tók í upphafi árs 2020 við þessum tekstri og sér nú um þjónustuna. Sveitarfélögin hafa beitt sér fyrir því að akstursleiðir landsbyggðarleiða Strætó komi sem flestum að notum en þjónustan er háð fjármagni frá ríkinu. Jafnframt hafa sveitarfélögin fagnað framtaki framhaldsskóla eins og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki sem hefur boðið nemendum upp á dreifnám víðsvegar á upptökusvæði skólans þannig að nemendur geti lokið almennum greinum iðnbrauta og kjarnagreinum stúdentsbrauta í sinni heimabyggð.