Sveitarfélagið Skagafjörður

Skagafjörður er yfir 40 km langur og litlu mjórri í mynni fjarðarins. Þrengist fjörðurinn mikið er kemur inn fyrir Fljótavík en úr því mjókkar hann lítillega. Að firðinum liggja tveir miklir skagar sem eru um margt ólíkir.

Vestari landálman, Skagi, er yfir 40 km á lengd. Nes þetta er ólíkt flestum öðrum nesjum á norðanverðu landinu. Syðri hlutinn er hálendur en er út kemur um miðju verður nesið hæðótt láglendi og flatt sums staðar með ógrynni af tjörnum og vötnum. Strandlengjan er hvergi há í sjó fram nema á einum stað við Tindastól.

Álman austan fjarðarins, Tröllaskagi, er hálendust allra nesja á Íslandi og gengur víða hömrum girt í sjó fram. Margir smájöklar eru á Tröllaskaga sem er hrikalegur, sundur skorinn djúpum dölum og gljúfrum. Eftir miðjum skaganum kvíslast margir stærri og smærri jökulflákar um hæstu hryggi og bungur og bera flestir nöfn eftir dölum þeim og byggðum sem að þeim liggja. Sums staðar ná dalbotnarnir nær því alveg saman og eru þar fornar leiðir milli byggðarlaga, misjafnlega fjölfarnar og greiðfærar. Þegar norðarlega kemur á skagann lækka fjöllin og eru þar 700-800 m. Hálendi þetta er gróðurlítið hið efra, fjöllin flatar urðarbungur að ofan en annars staðar þunnir hamrahryggir, hvassar nípur eða hjarni hulin skörð. Víðast með sjó fram er láglendi nokkuð en misbreitt og um og yfir 20 m háir bakkar eru svo til óslitið frá botni fjarðarins og út undir Hofsós.

Tröllaskaginn er áfastur hálendi Akrahrepps til suðurs. Fjalllendi hans skerst sundur á ýmsa vegu af fjölmörgum daladrögum er veita vötnum til byggðarlaga í Skagafirði og Eyjafirði.

Fyrir botni fjarðarins eru flatir sandar nema þar sem hraunásar Hegranessins teygjast út í sjó. Innan hrikalegrar fjallaumgjarðar og upp frá fjarðarbotninum er einn breiðasti og tvímælalaust sléttasti stórdalur Íslands og einhver sá grösugasti. Sjálft héraðið er upp undir 50 km á lengd en klofnar svo í dali sem ná óraleiðir inn á hálendið. Að norðanverðu er breidd undirlendisins milli 5 og 10 km en út frá meginhéraðinu, einkum að austanverðu, ganga margir dalir, sumir stórir og grösugir en aðrir litlir og hrjóstrugir. Um þá falla ár, stærri og smærri skolgráar jökulelfur og tærar bergvatnsár, allar með fremur víðáttumikil aðrennslissvæði. Flestar hverfa þær að lokum ofan í Héraðsvötnin.

Nokkrar eyjar eru í sveitarfélaginu, tvær þær stærstu, Drangey og Málmey eru háar, brúnhvassar og svipmiklar. Aðrar eyjar eru öllu minni, Lundey, 2-3 km undan landi fyrir botni fjarðarins, Elínarhólmi, smáeyja fyrir mynni Kolku og Ingveldarstaðarhólmi, lítil eyjaþúst norðaustur frá Ingveldarstöðum á Reykjaströnd.

Fjórir þéttbýlisstaðir eru í sveitarfélaginu, Hólar í Hjaltadal, Hofsós, Sauðárkrókur og Varmahlíð. Helstu ferðamannaseglar sveitarfélagsins eru gamli torfbærinn í Glaumbæ, Hóladómkirkja, flúðasiglingar, hestaferðaþjónusta, sundlaugin á Hofsósi, Grettislaug, skíðasvæðið á Tindastóli og siglingar í eyjar fjarðarins. Upplýsingamiðstöð landshlutans er í Varmahlíð. 

Útgerð, iðnaður, verslun og opinber þjónusta eru stærstu atvinnuvegirnir á Sauðárkróki en landbúnaður lang stærsti atvinnuvegurinn í öðrum hlutum héraðsins. Aðsetur sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar er á Sauðárkróki og þar eru skrifstofur sveitarfélagins og flestar þjónustustofnanir.