Akrahreppur

Akrahreppur (áður kallaður Blönduhlíðarhreppur) er um 1380 km2 að stærð og er stærsti hluti hreppsins fjalllendi. Láglendisræma liggur meðfram fjallsrótum og teygir sig inn í Austur- og Norðurárdal. Aðeins tæp 11% landsins eru undir 300 metra hæð. Hreppurinn nær yfir Blönduhlíð og Norðurárdal, Kjálka og Austurdal allan nema hvað bærinn Bústaðir tilheyrir Sveitarfélaginu Skagafirði og alla leið inn til Hofsjökuls í suðri. Nokkrar jarðir í Vallhólma tilheyra Akrahreppi þótt þau séu nú vestan Héraðsvatna, sem hafa breytt um farveg á þeim slóðum. Víðlend afréttarlönd tilheyra sveitarfélaginu: Silfrastaðaafrétt og Nýjabæjarafrétt.

Grunnskóli hreppsins var í þinghúsinu á Stóru-Ökrum og í félagsheimilinu Héðinsminni frá 1949 til 2006, er hann var lagður niður. Síðan þá hefur öllum grunnskólanemendum úr Akrahreppi verið ekið í skóla í Varmahlíð þar sem heildstæður grunnskóli, Varmahlíðarskóli, er rekinn af Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi.

Í hreppnum eru fjórar kirkjur. Þær eru eru á: Flugumýri, Miklabæ, Silfrastöðum og Ábæ í Austurdal en Ábæjarsókn er nú öll í eyði. Lítils háttar jarðhiti er á nokkrum stöðum í Akrahreppi og var byggð sundlaug á Víðivöllum árið 1938, sem er fyrir löngu aflögð. Hitaveita hefur verið lögð frá Varmahlíð um mestalla Blönduhlíð og ljósleiðari er kominn í nær öll hús.

Akrahreppur er sögusvið margra stórviðburða s.s. á Sturlungaöld þegar barist var á Örlygsstöðum og við Haugsnes, í mannskæðustu orustu á Íslandi og þegar bærinn á Flugmýri var brenndur.

Þann 1. janúar 2020 bjuggu 205 íbúar í Akrahreppi. Mannfjöldi í sveitarfélaginu hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarna tvo áratugi og meðalaldur þróast í samræmi við landsmeðaltal. Tækniframfarir í landbúnaði hafa leitt til fækkunar starfa í sveitum og eitt af því sem talið er að standi í vegi fyrir fólksfjölgun í sveitarfélaginu er fábreytni í atvinnulífi og skortur á nýjum lóðum.

Aðalatvinnuvegur er landbúnaður og er ekkert þéttbýli í sveitarfélaginu. Ferðaþjónusta er ekki umfangsmikil atvinnugrein á svæðinu en möguleikar eru til að auka umsvif hennar.