Álit samstarfsnefndar og forsendur tillögu

Samstarfsnefnd, sem sveitarstjórnir Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar skipuðu til að kanna kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna hefur skilað áliti sínu, þar sem hvatt er til sameiningar. 

Nefndin hvetur íbúa til að samþykkja tillögu um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar, en það er álit nefndarinnar að sameining Skagfirðinga í eitt sveitarfélag hafi fleiri kosti en galla.

Sameiningu sveitarfélaganna fylgja áskoranir sem nefndin telur að hægt sé að mæta með útfærslu stjórnskipulags þar sem íbúar fái meiri tækifæri til beinnar þátttöku í ákvarðanatöku.

Að mati nefndarinnar mun sameining sveitarfélaganna hafa í för með sér aukna fjárfestingagetu og stuðla að hraðari uppbyggingu í Varmahlíð. Sveitarfélag allra Skagfirðinga muni hafa sterkari rödd við að koma hagsmunum íbúa og atvinnulífs í Skagafirði á framfæri við stjórnvöld. Öflugt sveitarfélag með einfalda og skilvirka stjórnsýslu, sem leitar eftir sjónarmiðum íbúa með skipulögðum hætti getur bætt búsetuskilyrði og veitt framúrskarandi þjónustu til framtíðar.

Íbúar eru hvattir til þess til að kynna sér stöðugreiningu og álit nefndarinnar.