Hvað á sveitarfélagið að heita?

Hugmyndasöfnun fyrir val á heiti á sameinað sveitarfélag er hafin og lýkur kl. 16 þann 7. apríl. Verkefnið er unnið í samstarfi við Íbúar ses. sem sérhæfir sig í rafrænum samráðskerfum og rekur BetraÍsland.is

Hugmyndasöfnunin er hafin á BetraÍsland.is 

Hægt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum í gegnum Ísland.is, eða með nafni og netfangi. Þeir sem það gera fá tilkynningar um breytingar og athugasemdir við tillögur. Það er líka hægt að taka þátt nafnlaust og án innskráningar, en þá berast ekki tilkynningar.

Æskilegt er að tillögur séu lagðar fram með stuttum skýringum. Þátttakendur geta líka lýst skoðunum sínum á einstökum tillögum sem aðrir hafa lagt fram.

Heiti sveitarfélaga skulu samrýmast íslenskri málfræði og málvenju samkvæmt sveitarstjórnarlögum, og falla að þeim reglum sem útlistaðar eru í lögum um örnefni og reglugerð um störf örnefnanefndar. Sjá nánar á vefsíðu Örnefnanefndar.

Að lokinni hugmyndasöfnun verður farið yfir allar framkomnar tillögur. Undirbúningsstjórnin velur nokkrar hugmyndir sem sendar verða Örnefnanefnd til umsagnar sem hefur þrjár vikur til að skila rökstuddu áliti sínu.

Gert er ráð fyrir að samhliða sveitarstjórnarkosningum í maí fari fram skoðanakönnun um nafnið meðal íbúa. Niðurstöður hennar verða leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun um nafn sveitarfélagsins samkvæmt lögum.