Innviðaráðherra staðfestir sameiningu Skagfirðinga

 

Innviðaráðherra staðfesti þann 4. apríl sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar í eitt sveitarfélag.  Tilkynning þess efnis hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 404/2022.

Boða skal til sveitarstjórnarkosninga 14. maí 2022 og kjósa sjö fulltrúa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins sameinaða sveitarfélags 29. maí 2022 og á sama tíma tekur sameiningin gildi.

Samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar mun gilda fyrir hið nýja sveitar­félag þar til því hefur verið sett ný samþykkt. Heiti hins sameinaða sveitarfélags verður auglýst sérstak­lega en hugmyndasöfnun fyrir val á nafni sveitarfélagsins er hafin og lýkur kl. 16 þann 7. apríl nk. 

Sveitarstjórnir sveitarfélaganna kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjórnir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils, skv. 14. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórnar, skulu vera undirkjörstjórnir í hvoru sveitarfélagi fyrir sig við sveitar­stjórnar­kosningar.