Valið milli þriggja heita

Ráðgefandi skoðanakönnun um val á nafni nýs sveitarfélags fer fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Niðurstöður hennar verða leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun um nafn sveitarfélagsins samkvæmt lögum. Kjósendur á kjörskrá í Akrahreppi og Sveitarfélaginu Skagafirði geta tekið þátt í könnuninni á kjörstað þann 14. maí. 

Undirbúningsstjórn óskaði eftir umsögn Örnefndar um tvær tillögur að nafni á sameinað sveitarfélag. 

• Skagafjörður

• Hegranesþing

Umsögn örnefnanefndar barst þann 29. apríl sl. Nefndin mælir með nafninu „Hegranesþing“ og leggst ekki gegn nafninu „Skagafjörður“. Tillögurnar tvær, auk heitisins „Sveitarfélagið Skagafjörður“, voru þær sem komu oftast fyrir í hugmyndasöfnun á betraisland.is sem lauk þann 7. apríl sl. Að mati undirbúningsstjórnar var ekki þörf á því að senda nefndinni til umsagnar nafnið „Sveitarfélagið Skagafjörður“ þar sem það hefur nú þegar verið notað yfir í rúm 20 ár.

Í ljósi þess að mikill meirihluti þátttakenda í hugmyndasöfnuninni í apríl lagði til ofangreindar þrjár tillögur hefur undirbúningsstjórn ákveðið að íbúum verði boðið að velja milli þeirra.

Hegranesþing

Landsvæðið milli kvísla Héraðsvatna í Skagafirði kallast „Hegranes“ sem er staðsett fyrir miðju fjarðarins. Þar var auk þess þingstaður. Um er að ræða bæði sögulegt heiti auk þess sem það felur í sér tilvitnun í þekkta staðsetningu í Skagafirði. Sumir íbúar telja Hegranes vera hjarta fjarðarins sem einkennir þjóðlega fortíð svæðisins. Að mati örnefnanefndar fellur Hegranesþing vel að nafngiftahefð í landinu og mælir nefndin með nafninu.

Skagafjörður

Með sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar verða öll sveitarfélög í Skagafirði sameinuð í eitt og ljóst að Skagafjörður er sameiningartákn íbúa svæðisins. Íbúar beggja sveitarfélaga upplifa sig sem Skagfirðinga auk þess sem íbúum á svæðinu er tamt að nota heitið bæði sem vísun í landsvæði sem og stjórnsýslueiningu. Í umsögn örnefnanefndar kemur fram að mikilvægt sé að málnotendur átti sig á greinarmuninum á stjórnsýsluheiti og landsvæði og skilji hvers konar stjórnsýslueiningu um sé að ræða. Örnefnanefnd leggst þó ekki gegn nafninu.

Sveitarfélagið Skagafjörður

Sveitarfélagið Skagafjörður varð til árið 1998 þegar 11 af 12 sveitarfélögum í Skagafirði sameinuðust. Nafnið hefur því verið notað sem heiti sveitarfélagsins í 24 ár. Eitt af markmiðum laga um örnefni er að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna. Í umsögn örnefnanefndar um tillöguna „Skagafjörður“ er bent á að með því að taka út fyrri hluta nafnsins er ekki unnið í anda meginsjónarmiða örnefnanefndar um nauðsyn þess að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna. Örnefnanefnd fékk nafnið ekki til umsagnar.