Vinna samstarfsnefndarinnar í fullum gangi

Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur hafa gengið til formlegra sameiningarviðræðna og er vinnan við verkefnið komin á fullt skrið. Samstarfsnefndin hefur fengið skólastjórnendur í Varmahlíð og sérfræðinga af fjölskyldusviði Sveitarfélagsins Skagafjarðar á tvo fundi nefndarinnar þar sem staða og framtíðarsýn í félags- og fræðsluþjónustu var rædd. Auk þess er umræða um fjármál sveitarfélaganna og stjórnskipulag komin vel á veg.

Markmið með vinnu samstarfsnefndarinnar er að fá fram upplýsingar um stöðu og sjónarmið fyrir mótun framtíðarsýnar og stuðla að auknum samskiptum og samráði við sérfræðinga sem starfa í stjórnsýslu sveitarfélaganna. Minnisblöð um stöðu og framtíðarsýn málaflokkanna verða birt á vefsíðu verkefnisins um leið og niðurstöður samstarfsnefndarinnar hafa verið dregnar saman.

Niðurstöður og samantekt á vinnu samstarfsnefndar verða nýttar til undirbúnings íbúafunda sem áætlaðir eru í lok janúar 2022.